okkar frábæru kennarar

hjá söngsteypunni

Aldís Fjóla
Aldís Fjóla
Eigandi og CVT kennari

Sveitastúlkan Aldís Fjóla Borgfjörð Ásgeirsdóttir kemur frá Borgarfirði eystra og hefur sungið síðan hún mundaði hárbursta sem míkrófón í æsku. Hún hefur tekið þátt í söngveislum um land allt og hefur meðal annars sést í The Voice og spurningaþættinum Poppsvari þar sem hún ræraði sig inn í hjörtu þjóðarinnar. Aldís Fjóla útskrifaðist úr Complete Vocal Institute sem Advanced Soloist árið 2007 og bætir nú við sig kennararéttindum úr sama skóla. Hún hefur einnig byrjað að gefa út sína eigin tónlist og orðið "loksins" heyrist mikið frá hennar nánustu.

Bjartmar Þórðar
Bjartmar Þórðar
CVT kennari

Bjartmar Þórðarson er söngvari, leikari og leikstjóri. Hann lærði leik og leikstjórn í Bretlandi og hefur komið víða við á sviði sem utan þess, sungið og/eða leikið á flestum sviðum borgarinnar og leikstýrt á nokkrum þeirra. Hann er einnig fársjúkur fasteignaperri og elskar að gera upp gömul hús, því ljótari og skítugri því betra. Bjartmar hefur mjög gaman af því að galdra það besta út úr leikurum og söngvurum og notar hann til þess reynslu sína af leik og leikstjórn sem og hina mögnuðu Complete Vocal tækni, sem hann hefur verið að læra í Kaupmannahöfn undanfarin misseri.

Hildur
Hildur
Kennari í lagasmíðum

Hildur er tónlistarkona og lagahöfundur sem er þekkt fyrir hressa popptónlist og grípandi melódíur. Hún byrjaði 18 ára í bransanum sem söngkona og sellóleikari hljómsveitarinnar Rökkurró og túraði Evrópu og gaf út nokkrar plötur með þeim áður en hún hóf sólóferil sinn árið 2016 undir nafninu Hildur. Hún fékk Íslensku Tónlistarverðlaunin 2017 fyrir lag ársins, I’ll Walk With You og komst í úrslit söngvakeppninnar sama ár með lagið Bammbaramm, sem festist harkalega á heilum margra. Hildur vinnur einnig sem lagahöfundur fyrir aðra listamenn og hefur tekið þátt í lagasmíðabúðum og sessionum til dæmis í Berlín, Los Angeles, Stokkhólmi, Hamborg, Osló og Síerra Leone. Hún hefur í seinni tíð einnig haldið ýmis námskeið í lagasmíðum og kemur nú til liðs við Söngsteypuna sem lagasmíðakennari.

Arna Rún
Arna Rún
CVT kennari

Arna Rún útskrifaðist sem viðurkenndur Complete Vocal Technique (CVT) kennari við Complete Vocal Institute (CVI) vorið 2015. Hún byrjaði að starfa sem söngkennari og raddþjálfari árið 2012 og hefur síðan þá rekið tvo söngskóla og kennt í ýmsum skólum og stofnunum, þar á meðal Kvikmyndaskóla Íslands. Fyrstu kynni hennar af söngnámi voru við Nýja söngskólann Hjartansmál (nú Söngskóli Sigurðar Demetz) þar sem hún lauk 3. stigi í klassískum einsöng. Meðfram mastersnámi í Líffræði hóf Arna nám í Tónlistarskóla FÍH og lauk þar Miðprófi í Jazz söng árið 2011. Í FÍH kynntist Arna Complete Vocal Technique að alvöru. Það fyrsta sem heillaði hana við þessa söngtækni var það að CVT er byggð á rannsóknum og vísindum sem snúast að röddinni og heilbrigði hennar. Hún sá einnig mikla möguleika í tækninni til að kenna fólki að læra heilbrigða raddbeitingu á skýran og skilvirkan hátt. Á sínum ferli sem söngkennari og raddþjálfi hefur Arna öðlast yfirgripsmikla þekkingu á kennslu tengdri röddinni þar sem hún hefur kennt söngvurum á öllum aldri og af öllum reynslustigum, frá algjörum byrjendum til atvinnusöngvara, sem og haldið námskeið í heilbrigðri raddbeitingu fyrir ýmsa aðila m.a. presta, kennara og þjálfara Dale Carnegie.

Vignir Snær
Vignir Snær
Upptökustjóri

Vignir byrjaði að læra á gítar þegar hann var 9 ára og er í dag einn af virtari tónlistarmönnum landsins. Hann varð fyrst þekktur með hljómsveitinni Írafár og hefur síðan starfað með öllum helstu tónlistarmönnum þjóðarinnar. Hann er snillingur á gítarinn, afkastamikill lagasmiður og afbragðs söngvari. Hann er einnig vel þekktur sem „pródusent“ $ upptökustjóri og hefur starfað sem tónlistarstjóri í sjónvarpi og leikhúsi, má þar m.a nefna Idol, X-Fagtor, The Voice, Hárið, Grease og Footloose. Vignir er leiðbeinandi og upptökustjóri hjá Söngsteypunni.

Anna Jóna
Anna Jóna Dungal
Tónlistabransaráðgjafi

Frá því að hún fékk að vinnu við að rífa miða í dyrunum á Antony and the Johnsons tónleikum í Fríkikjunni þegar hún var 13 ára gömul hefur Anna Jóna Dungal verið heilluð af tónlistarbransanum. Hún útskrifaðist frá BIMM Berlin með BA(Honours) gráðu í Music Business árið 2019 en á þeim rúmu 6 árum sem hún bjó í Berlín stofnaði hún meðal annars mánaðarlega tónleikaröðina Basement Bash sem hún rak sjálfstætt í 2,5 ár, stýrði tónlistarhátíðinni Berlin Midsommar 2017, skipulagði alþjóðlegar lagahöfundabúðir, starfaði við fjölbreytta viðburða- og verkefnastjórnun og margt fleira. Hjá alþjóðlega tónlistar PR fyrirtækinu Better Things (fyrrum Nordic by Nature) þróaði hún verkefnið Die Neuen Schweden á árunum 2016-2020 sem og kom á fót ráðgjafa- og fræðsluvettvanginum Better Independent. Þar bauð hún sjálfstæðu tónlistarfólki að fræðast um allt það sem kemur að tónlistarbransanum í formi fyrirlestra, násmeiðna, hlaðvarps og einkaráðgjafar. Anna Jóna flutti til aftur til Reykjavíkur í byrjun 2021 og stofnaði ok ráðgjöf, vettvang þar sem hún ráðfærir tónlistarfólki um allt sem kemur að því að koma tónlist þeirra á framfæri sem og tekur að sér PR og markaðssetningu, kennir námskeið, skipuleggur viðburði og margt fleira.

Helgi Reynir
Helgi Reynir
Píanóleikari

Helgi hóf píanónám 5 ára gamall og hefur verið nörd alla tíð síðan. Meðfram því að spila á píanó, gítar, bassa, trommur, harmonikku og básúnu seldi hann einnig föt í herrafataversluninni Dressmann um árabil og hefur því heilmikla reynslu í fatageiranum, hvernig svo sem það kemur nokkrum að gagni. Helgi hefur fengist við sennilega allt sem viðkemur tónlist og hefur einstaklega gaman að því að vinna með öðru fólki, aðallega skemmtilegu fólki samt. Samfara því að vera einstakur stuðpinni sér Helgi um undirleik í söngtímum hjá CVS og við kunnum honum miklar þakkir fyrir, enda óneitanlega best klæddi kennarinn á gólfinu! 🙂

Jón Ingimundarson
Jón Ingimundarson
Píanóleikari

Jón hóf nám við Tónlistarskólann á Hólmavík fimm ára gamall á blokkflautu en skipti snarlega yfir á orgel, og leiddist síðar út í klassískt píanónám. Freistingarnar enduðu ekki þar, því á unglingsárunum hafði hann svo leiðst út í að spila með eyranu og læra hljóma. Það átti eftir að koma sér vel í menntaskóla því þá kunni hann að spila hljóma eftir eyranu sem greiddi svo aðgang hans að hljómsveitastússi af ýmsu tagi. Hann hóf nám í jazzpíanóleik við Tónlistarskóla FÍH árið 2008 og úskrifaðist þaðan árið 2015. Meðfram náminu hefur Jón spilað með eða án einvalaliðs tónlistarfólks við hin ýmsu tilefni, s.s. kokteilboð, árshátíðir, leiksýningar, söngleiki, skírnir, útskriftir, fermingar, giftingar, skilnaði, hljóðritun, útihátíðir, tónleika, o.fl., o.fl.

Ágústa Ósk
Ágústa Ósk
CVT kennari

Ágústa Ósk kláraði kennaranám úr Complete Vocal Institute í Kaupmannahöfn árið 2009. Síðan þá hefur hún starfað hjá Söngsteypunni ásamt því að starfa sem félagsráðgjafi. Með þessu öllu syngur hún auðvitað af lífi og sál og er m.a. í Reykjavík Gospel Company. Ágústa heldur utan um námskeiðið okkar „söngur og sjálfstraust“ af sinni alkunnu og miðlar af visku sinni og reynslu.

Malen Áskels
Malen Áskels
Leiðbeinandi

Malen hefur verið að syngja frá barnsaldri og byrjaði að taka að sér “gigg” með systur sinni sem unglingur. Hún lék einnig í mörgum skólaleikritum sem barn og unglingur og hefur mikinn áhuga á að hjálpa fólki með sviðsframkomu og sjálfsöryggi. Árið 2019 útskrifaðist Malen úr skólanum Complete Vocal Institute með diplómu í söng og hefur einnig lokið Samsteypunni hjá Söngsteypunni. Malen er 22 ára og er að taka sín fyrstu skref í tónlistarbransanum á Íslandi en hún hefur gefið út fjögur frumsamin lög.